Hagnaður Skeljungs á öðrum ársfjórðungi þessa árs nam 435 milljónum króna samkvæmt árshlutauppgjöri félagsins sem birt var síðastliðinn þriðjudag. Dróst hagnaður félagsins saman um 7,9% frá sama ársfjórðungi í fyrra. Minni hagnað milli tímabila má að mestu leyti rekja til hærri fjármagnsgjalda og og neikvæðra áhrifa dótturfélaga. Hagnaður félagsins á fyrri helmingi ársins var 16,9% hærri en á sama tímabili í fyrra og nam 851 milljón króna.

Framlegð félagsins jókst um 1,7% á ársfjórðungnum miðað við sama tímabil í fyrra. EBITDA nam 907 milljónum króna á fjórðungnum og jókst um 3,5% milli ára en EBITDA á fyrri helmingi ársins jókst um 14,6% milli ára. Þá lækkaði launakostnaður félagsins um 3,9% milli ára á sama tíma og laun á íslenskum vinnumarkaði hafa hækkað töluvert.  Þá greindi Skeljungur einnig frá því að færeyska samkeppniseftirlitið hefði heimilað kaup félagsins á 70% hlut í Demich p/f en það félag býður umhverfisvænar húshitunarlausnir í Færeyjum.

Jákvæðar afkomuviðvaranir

Góður gangur hefur verið í rekstri Skeljungs það sem af er þessu ári sem hefur orðið til þess að stjórnendur félagsins hafa í tvígang hækkað afkomuspá fyrir árið 2018. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að EBITDA yrði á bilinu 2.600-2.800 milljónir króna árinu en spáin var hækkuð um 200 milljónir í apríl og um 300 milljónir 21. ágúst síðastliðinn. Hækkaði gengi bréfa Skeljungs um 8,6% í kjölfarið en hlutabréfaverð félagsins hækkaði um 18,5% frá því í byrjun ágúst fram að birtingu uppgjörsins. Félagið lækkaði þó um 3,37% í kjölfar uppgjörsins og stóð gengi bréfa þess í 7,17 krónum á hlut við lokun markaða á miðvikudag.

Geta gert enn betur

Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs segir að staða félagsins sé góð og vel hafi gengið bæði rekstrar- og fjárhagslega séð. „Þær breytingar sem við höfum gert á félaginu bæði hvað varðar skipulag og hvernig hlutirnir eru gerðir eru farnar að skila árangri. Okkur hefur tekist að draga úr kostnaði á sama tíma og við erum undir miklum kostnaðarþrýstingi bæði á Íslandi og í Færeyjum. Fyrirtækið er mun skilvirkara en það hefur verið og framlegð er að aukast á meðan við höfum náð að halda kostnaði niðri þrátt fyrir aukin umsvif.

Á sama tíma vil ég leggja áherslu á að þrátt fyrir góðan árangur þá getur Skeljungur gert enn betur. Við erum með mörg verkefni í gangi sem munu bæta fyrirtækið sem mun vonandi leiða til enn betri afkomu í framtíðinni.“ Þá greindi Egholm einnig frá því að 10-11 munu hverfa af bensínstöðvum Skeljungs á höfuðborgarsvæðinu eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á fimmtudag.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .