*

miðvikudagur, 21. nóvember 2018
Innlent 5. nóvember 2017 09:17

Breytt félag með Olís innanborðs

Capacent áætlar að markaðsverðmæti Haga með Olís innanborðs sé rúmlega 58 milljarðar króna.

Snorri Páll Gunnarsson
Finnur Árnason, forstjóri Haga

Capacent áætlar að markaðsvirði Haga með Olís innanborðs sé um 58,2 milljarðar króna. Þetta kemur fram í nýjasta verðmati Capacent á Högum. 

Lauslegt verðmat Capacent á hverjum hlut í Högum ásamt Olís er 50,5 krónur á hlut eða rúmlega 58 milljarðar króna Án Olís er hver hlutur í Högum metinn á 47,5 krónur á hlut og félagið í heild því metið á 54,8 milljarða króna. Miðað við gengi bréfa í Högum við lokun markaða á föstudaginn nam markaðsvirði félagsins rúmlega 40 milljörðum og telja Capacent Haga því undirverðlagt um rúmlega 32% á markaði.

Áreiðanleikakönnunum í samruna Haga og Olís er lokið og er fullgild samrunatilkynning komin til Samkeppniseftirlitsins. Hefur eftirlitið til tíma mánaðamótanna febrúar-mars á næsta ári til að skila úrskurði sínum. Í fjárfestakynningu Haga fyrir annan ársfjórðung kemur fram að heildarvirði Olís sé á bilinu 15,1 til 16,1 milljarður króna. Eignir samstæðunnar verða um 52 milljarðar eftir viðskiptin og eiginfjárhlutfall 44%, en í lok ágúst var efnahagsreikningur Haga 30,6 milljarðar að stærð og eiginfjárhlutfall 61%.

„Ef Hagar sameinast Olís mun það breyta fyrirtækinu mikið og mögulega auka framlegð og EBITDA félagsins um 40 til 50%,“ segir í verðmatinu. Upplýsingar um kaupin á Olís og vænt samlegðaráhrif eru hins vegar takmarkaðar og segir í verðmatinu að þar geti stjórnendur Haga vissulega gert betur í að upplýsa markaðinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.