Undanfarna mánuði hafa óvenjumörg félög í Kauphöllinni skipt um forstjóra og hefur jafnmikil endurnýjun í brúnni ekki átt sér stað frá Hruni. Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs, segir margvíslegar og flóknar ástæður fyrir því að jafnmargir forstjórar hafi stigið til hliðar að undanförnu. „Þess vegna er mikilvægt að fullyrða ekkert um hvað liggur að baki í hverju tilfelli. Hins vegar kemur ekki á óvart að breytingar séu meiri og hraðari nú en oft áður, einfaldlega vegna þess að atvinnulífið er að taka aftur við sér aftur eftir tímabil sem einkenndist af litlum og hægfara breytingum.

Að baki er tímabil þar sem fyrirtækin voru að ná vopnum sínum aftur eftir fjármálahrunið en slíkir tímar einkennast oft af meiri íhaldssemi og minni hvata til breytinga. Nú er hins vegar að renna í garð nýr tími með öðrum áskorunum og maður finnur fyrir því að breytingar og ný viðhorf eru í gerjun innan margra stórra fyrirtækja. Þótt lítið sé hægt að fullyrða um hvert tilfelli fyrir sig eru þau að samanlögðu til marks um ákveðna undiröldu breytinga sem hreyfir við bæði einstökum fyrirtækjum og atvinnulífinu í heild.

Hluti af þessu breytta umhverfi er að nú eru gerðar miklu meiri kröfur til stjórna fyrirtækja sem aftur gera meiri kröfur til forstjóra og framkvæmdastjórna félaganna. Samhliða sjáum við fleiri dæmi um stjórnarfólk sem stígur fram og grípur inn í þegar það telur að eitthvað mætti betur fara. Það sama á við forstjórana sjálfa sem eru nú óhræddari við að stíga til hliðar þegar þeim hugnast, hvort sem ástæðan lýtur að  persónulegum högum eða rekstri og stefnu fyrirtækisins. Þetta er að mínu viti góð þróun og jákvæð viðhorfsbreyting.

Aukinn kjarkur og þekking stjórnarmanna og forstjóra til að taka sjálfstæðar ákvarðanir á eigin forsendum er sömuleiðis merki um að fólk óttast síður hvaða augum aðrir kunna að líta ákvörðunina. Auðvitað er ekkert að því að stíga til hliðar þegar fólki líður ekki vel í starfi eða finnur að metnaður og áhugi fer dvínandi. Það er í raun mun heilbrigðara viðhorf fyrir bæði fyrirtækin og einstaklingana en að líta á afsögn sem ósigur og neita að víkja óháð aðstæðum,“ segir Katrín S. Óladóttir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .