Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji er í fyrsta sæti yfir fyrirmyndarfyrirtæki Viðskiptablaðsins og Keldunnar í ár en Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir það vera viðurkenningu fyrir starfsmenn fyrirtækisins fyrir vel unnin störf í erfiðu rekstrarumhverfi.

„Ég er þakklátur fyrir rekstrarárið og viðurkenningin staðfestir það að starfsmenn Samherja hafa staðið sig vel. Árið var á margan hátt krefjandi. Gengi íslensku krónunnar hélt áfram að styrkjast, aðstæður á ýmsum mörkuðum okkar erlendis voru óhagstæðar og við stendum verr í samkeppni við aðrar þjóðir. Þá hófst sjómannaverkfall í desember 2016 sem teygði sig töluvert fram á árið 2017.

Starfsfólk okkar hefur þurft að sýna gríðarlega aðlögunarhæfni, halda góðum tengslum við viðskiptavini og um leið skapa ný tengsl. Sumir markaðir hafa lokast, t.d. Rússland og hefur sölufólk okkar unnið hörðum höndum að finna nýja markaði. Okkur hefur tekist að byggja upp góð tengsl í Úkraínu og Egyptalandi svo eitthvað sé nefnt,“ segir Þorsteinn Már.

Þá segir hann breytt neyslumynstur einnig skapa áskoranir fyrir fyrirtækið.  „Neyslumynstur hefur breyst og við höfum þurft að bregðast við því. Neytandinn í dag er mun kröfuharðari en áður og afhendingaröryggi og gæði skipta höfuðmáli. Styrkur Samherja felst í samþættingu veiða, vinnslu og sölu en fyrst og fremst í samvinnu starfsmannanna. Breytingar á markaði eru fljótar að skila sér til allra innan fyrirtækisins, hvort sem það eru skipstjórnarmenn, fiskvinnslan eða sölufólk, sem bregst skjótt við og aðlagar sig að nýjum kröfum viðskiptavinarins. Sú aðlögunarhæfni verður ekki lærð af bókum.“

  • Afkoma Samherja var rétt tæplega 14 milljarðar á árinu en tekjur námu tæpum 83 milljörðum.
  • Stærstu eigendur Samherja eru eignarhaldsfélagið Steinn, Kristján V Vilhelmsson, fjárfestingarfélagið Fjörður og Bliki ehf. Eignarhaldsfélagið Steinn er í meirihlutaeigu Þorsteins Más Baldvinssonar. Kristján og Þorsteinn Már eiga svo Fjörð sameiginlega.
  • Eiginfjárhlutfall Samherja var 76% á árinu en heildareignir námu rúmum 110 milljörðum og eigið fé því tæplega 84 milljarðar.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins og Keldunnar, Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri. Sérblaðið er opið öllum og hægt er lesa það með því að smella hér .