Brim hf. og Icelandic Group hafa undirritað samning um kaup Brims á starfsemi Icelandic Group í Asíu.

Markmið kaupanna er að Brim hyggst fylgja vörum sínum lengra inn á Asíumarkað. Í tilkynningu segir að sala Icelandic Group sé rökrétt skref í stefnu félagsins að starfa sem næst neytendum á mörkuðum í Vestur-Evrópu.

Icelandic Group hefur um all langt skeið rekið starfsstöð í Asíu og hafa 20 starfsmenn séð um miðlun sjávarafurða félagsins fyrst og fremst til stórnotenda og heildsala.

Brim hefur verið stór viðskiptavinur Icelandic Group. Með þessum kaupum færist Brim sem framleiðandi sjávarafurða nær markaði með beinni sölu til dreifingaraðila á mörkuðum í Asíu.

Vörumerki félagsins, Icelandic Seafood, fylgir ekki með í kaupum Brims á starfsemi félagsins í Asíu.

„Þróun í sjávarútvegi undanfarin ár hefur verið sú að útgerðarfyrirtæki færi sig nær markaðnum til að skilja betur þarfir hans og auka þannig verðmæti sjávarafurða. Við sjáum tækifæri í því að efla starfsemina í Asíu og auka verðmæti íslenskra sjávarafurða,” segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim.