*

föstudagur, 26. apríl 2019
Innlent 12. apríl 2017 13:31

Brim mun láta reyna á málið fyrir dómi

Guðmundur Kristjánsson segir ráðuneyti hafa hafnað beiðni Brims um skipan rannsóknarmanna án rökstuðnings

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf., hefur sent Viðskiptablaðinu erindi þar sem hann hafnar því sem hann kallar rógburð Sigurgeirs Kristgeirssonar í viðtali við blaðið sem birtist í dag, 12. apríl. 

Guðmundur segir málið snúast um það sem hann segir hafa verið þynningu á eignarhlut aðila tengdum Brimi í Vinnslustöðinni með því að virkja atkvæðarétt eigin bréfa. Vildu aðstandendur Brims að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið skipaði rannsóknarmenn til að fara yfir samruna Vinnslustöðvarinnar við Ufsaberg-útgerð ehf. 

Erindið hljóðar í heild sinni svo: 

Viðbrögð við viðtali við framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum Sigurgeir Kristgeirsson í Viðskiptablaðinu 12.apríl 2017 og vegna niðurstöðu Atvinnuvega‐ og nýsköpunarráðuneytisins um minnihlutavernd. Hafnað er rógburði framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar hf. og viljum vegna þess koma athugasemdum okkar á framfæri á málefnalegan hátt.

Forsaga rannsóknarbeiðni á starfshætti meirihluta hlutafjáreigenda Vinnslustöðvarinnar hf.  

Upphaf málsins má rekja til ársins 2011, þegar meirihluti eigenda VSV kom því til leiðar að þynna út eignarhlut aðila tengdum Brimi hf. með því að virkja atkvæðarétt eigin bréfa VSV. Þessi meirihluti er leiddur af framkvæmdastjóra Seilar ehf. sem er Sigurgeir Kristgeirsson en hann er stór hluthafi í Seil ehf. og jafnframt framkvæmdastjóri VSV.  

Með því móti tókst meirihlutanum í krafti leynilegs hluthafasamkomulags að þvinga fram aukinn meirihluta, eða 67% atkvæðavægi sem þurfti til að samþykkja samruna VSV og Ufsabergs útgerðar ehf. (UÚ). Slíkur meirihluti var ekki til staðar fyrir sölu eiginbréfa VSV til aðila innan hins leynilega hluthafasamkomulags.  

Þannig var samþykkt á hluthafafundi 10.05.2011 að selja 2,5% hlut í VSV til eigenda UÚ en þeir höfðu þá skömmu áður gerst aðilar að hinu leynilega hluthafasamkomulagi.  

Seil ehf. keypti svo þessi sömu hlutabréf á sama undirverði og þau voru afhent eigendum UÚ. Hæstiréttur Íslands dæmdi sölu eigin bréfa félagsins til eigenda UÚ ólöglega með dómi 585/2012 enda tilgangurinn með sölunni fyrst og fremst að þynna út lögbundinn rétt aðila, tengdum Brim og skapa Seil ehf. fjárhagslegan ávinning, en í dómi Hæstaréttar segir: 

„Hæstiréttur taldi að líta yrði svo á að samningur V hf. [Vinnslustöðvar] . við U ehf. [Ufsaberg]. 10. maí 2011 hefði engan annan tilgang haft en þann að virkja atkvæðisrétt eigin hluta í V hf. og sniðganga þannig það jafnræði og um leið atkvæðavægi sem 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995 væri ætlað að tryggja hluthöfum.” 

Þá segir jafnframt í dómnum: 

„Þetta sýnir að samningurinn var í raun hluti af samkomulagi aðila hans um samruna félaganna og verður ekki séð að hann hafi haft neinn sjálfstæðan tilgang, sem ekki hefði í öllum atriðum verið náð með eðlilegum hætti við samruna félaganna, annan en þann að virkja atkvæðisrétt eigin hluta stefnda.” 

Í kjölfari dómsins gerði meirihlutinn og eigendur UÚ viðauka við kaupsamninginn þar sem dómur Hæstaréttar var sniðgenginn með því að fella út skilyrði kaupsamningsins. Hæstiréttur samþykkti með ótrúlegum hætti þessa útfærslu meirihlutans þrátt fyrir að umrædd bréf væru kominn í hendur Seil ehf. á sama undirverði og þau voru seld til eigenda UÚ.  

Þar með var ljóst að eigin bréf VSV voru kominn í hendur Seilar ehf og brotið fullframið. Eftir að fyrri dómur féll í Hæstarétti gerði Stilla/Brim tilboð í umræddan 2,5% hlut VSV fyrir 587 milljónir króna en hluthafafundur VSV hafnaði þessu kauptilboði í krafti hins leynilega hluthafasamkomulags og framkvæmdi í staðinn söluna til eigenda UÚ á 2,5% af eigin bréfum fyrir 441,6 milljónir króna. 

Eigendur UÚ seldu svo Seil ehf. bréfin áfram á þessu sama verði og þannig varð VSV af 145 milljónum króna. Í okkar huga var hið raunverulega samkomulag við eigendur UÚ að þeir fengju hátt verð fyrir eignina sína borgað með eigin bréfum VSV á undirverði og þau yrðu svo seld til Seilar ehf. á sama undirverðinu. Þetta var það sem rannsóknarbeiðni Brims laut að. 

Beiðni til ANR  

Á aðalfundi VSV þann 2.6.15 var samþykkt tillaga: 

„Að skipaðir verði rannsóknarmenn með vísan til 97. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995, til að rannsaka eftirfarandi atriði í starfsemi félagsins: 

Meðferð eigin fjár Vinnslustöðvarinnar hf. í tengslum við samruna félagsins við Ufsaberg‐útgerð ehf. Nánar tiltekið afhending hlutafjár í eigu félagsins til eigenda Ufsasbergs‐útgerðar ehf. Að rannsakað verði sérstaklega verðmat á eignum í viðskiptunum, einnig og hvort hagsmunir félagsins hafi verið fyrir borð bornir. 

Einnig með hliðsjón af tengslum aðila í gegnum svonefnt hluthafasamkomulag milli stórra hluthafa og stjórnenda í félaginu hvort samruninn og afhending eigin  bréfa  félagsins  hafi  verið  til  þess fallið  að  afla  ákveðnum  hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna.“ 

Sérstakur endurskoðandi VSV skipaður af RSK, Grant Thornton lýsir því yfir eins og segir í niðurstöðubréfi ANR frá 4.4.2017, S liður: 

„...endurskoðunarfyrirtækið hafi orðið þess vart í störfum sínum við endurskoðun ársreikninga Vinnslustöðvarinnar hf. að komið hafi upp áleitnar spurningar um verð í viðskiptum í tengslum við samrunann sem um ræðir í málinu...“ og „...sjái ekkert því til fyrirstöðu að rannsókn fari fram.“ 

Þá segir í bréfi Grant Thornton til ANR í tilefni að endurupptökubeiðninni: 

„Hluti af rannsóknarefni því sem hér er til umfjöllunar er þannig út fyrir umfang endurskoðnunarvinnu okkar og hefur því ekki komið til álita í okkar vinnu. Við viljum þó taka fram að við störf okkar sem skipaðir endurskoðendur hjá Vinnslustöðinni hafa komið fram áleitnar spurningar um verð í viðskiptum í tengslum við samrunann, kaupum í Ufsaberg‐útgerð ehf. árið 2008, viðskiptum milli hluthafa og meðferð minnihluta hluthafa. 

Í áðurnefndu svarbréfi okkar til ráðuneytisins frá 8. september 2015 gerðum við ekki athugasemdir við tilnefningu rannsóknarmanna í máli þessu og teljum enn að slík rannsókn sé gagnleg. Vegna fyrirhugaðrar endurupptökubeiðni er sú skoðun okkar ítrekuð og með vísan til framangreinds getum við mælt með að slík rannsókn fari fram.”  

Niðurstaða Atvinnuvega‐ og nýsköpunarráðuneytisins (ANR) 

Í niðurstöðu ANR er beiðni Brims hafnað án málefnalegs rökstuðnings en í 97. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög segir m.a. að:   

„Hljóti tillagan fylgi hluthafahóps sem ræður yfir minnst 1/10 hlutafjárins getur hluthafi í síðasta lagi einum mánuði frá lokum fundarins farið þess á leit við ráðherra að hann tilnefni rannsóknarmenn. Tilmælin skal taka til greina, svo framarlega sem ráðherra telur nægilegar ástæður til þeirra.” 

Þar sem ANR og ráðherra hefur látið hjá líðast að rökstyðja með nokkru móti niðurstöðu sína mun Brim hf. láta á það reyna fyrir dómstólum hvort sú minnihlutavernd sem tryggð eru í 97. gr hlutafjárlaga sé virk. 

Að lokum 

Varðandi fullyrðingar Sigurgeirs í viðtali við Viðskiptablaðsins í dag þar sem hann vegur að æru minni og ræðir allt annað en aðalatriði málsins þá eru þær fullyrðingar ekki svara verðar. 

Virðingarfyllst fh. Brims hf., Guðmundur Kristjánsson, forstjóri.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim