Fjármálaráðuneyti hefur birt drög að uppfærðri eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki. Í kjölfar hrunsins eignaðist ríkið stóra hluti í íslensku bönkunum. Í dag á það 13% hlut í Arion banka, 98,2% í Landsbankanum og 100% í Íslandsbanka. Samkvæmt drögunum er stefnt að því að selja alla hluti ríkisins í Arion Banka og Íslandsbanka og 58 til 64% hlut í Landsbankanum. Ríkið hyggst því eiga 34 til 40% hlut í Landsbankanum líkt, sem er svipað og norska ríkið á í DnB Nor.

Capacent hefur greint bankasöluna og er Viðskiptablaðið með þá skýrslu undir höndum. Í henni segir að þó umsvif ríkisins á bankamarkaði hafi verið svipað fyrir 20 árum, þegar horft sé til eignarhalds, hafi hlutur ríkisins tvö- til þrefaldast, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og tífaldast að raunvirði frá árinu 1997.

Í greiningu Capacent segir að þrennt einkenni innlendu viðskiptabankanna.

„Fyrir það fyrsta er fjárhæð eiginfjárþáttar A óvenjulega há og eiginfjárhlutfall hátt; í öðru lagi hafa lánasöfn farið í gegnum víðtæka endurskipulagningu og hættan á óvæntum afskriftum eða miklum vexti vanskila ætti því að vera minni en víða erlendis. Í þriðja lagi má nefna að íslensku bankarnir eru mjög smáir."

Uppskipting fýslileg

Í greiningu Capacent kemur fram að meðalarðsemi íslensku bankanna af kjarnarekstri hafi verið rúmlega 80% af eðlilegri arðsemiskröfu og því megi draga þá ályktun að eðlilegt verð bankanna með tilliti til eigin fjár sé um 0,8.

„Augljósasti ávinningur fjárfesta í stöðunni er að taka út umfram eigið fé sem er nú þegar í bönkunum. Staða bundins fjármagns væri því lægri og arðsemi hærri miðað við óbreyttar forsendur um hagnað.

Hin leiðin sem líklega margir stærri fjárfestar horfa til er að brjóta bankanna upp og selja einstakar einingar. Ef seljendur skipta ekki upp bönkunum gæti vel hugsast að kaupendur geri það. Það á sérstaklega við ef stærri fagfjárfestar kaupa bankana.
Hugsanlegt er að hærra verð fáist fyrir banka með að brjóta hann upp en verð banka á alþjóðamörkuðum hefur verið undir bókfærðu eigin fé síðustu árin. Uppskipting íslensku bankanna gæti verið mjög fýsilegur kostur þar sem þeir eru líklegast of stórir fyrir innlendan hlutabréfamarkað og innlenda fjárfesta. Það væri jafnframt í anda þeirra hugmynda sem voru fyrstu árin eftir hrun um að endurskipuleggja bankakerfið og auka samkeppni á fjármálamarkaði."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .