Ef ekki væri fyrir fjármagnshöft og undirliggjandi verðbólguþrýsting vegna kjarasamninga, væri ástandið nokkuð gott á íslenskum íbúðamarkaði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Reykjavík Economics sem unnin er fyrir Íslandsbanka. Skýrslan ber nafnið „Endurreisn á óvissutímum“ og er sú fjórða sem ráðgjafafyrirtækið vinnur fyrir bankann. Í henni segir að nokkrir undirliggjandi þættir styðji við íbúðamarkaðinn. Það er helst vaxandi kaupmáttur launa, minnkandi atvinnuleysi og vanskil auk fólksfjölgunar.

Á móti því kemur að fyrstu kaupendur eiga stöðugt erfiðara með að kaupa fasteign, aðallega vegna eiginfjárþurrðar, en greiðslugeta þeirra virðist vera til staðar miðað við ásókn í leigumarkað. Þar að auki er lítið framboð af íbúðarhúsnæði um þessar mundir.

Minna atvinnuleysi og fólksfjölgun

Ef tekið er fyrst tillit til jákvæðra teikna á íbúðamarkaði, þá er það einna helst aukinn kaupmáttur og minna atvinnuleysi sem lita aðstæð­ ur markaðarins.Kaupmáttur jókst um 4% frá mars í fyrra til mars á þessu ári og atvinnuleysi hefur farið stöðugt minnkandi og var 4% í mars síðastliðnum en atvinnuleysi ungs fólks á sama tíma nam 10,8% og er það nálægt langtímameðaltali. Kaupsamningar með íbúðarhúsnæði voru 173,6% fleiri 2014 en þeir voru árið 2009 samkvæmt skýrslunni. Frá árinu 2013 til 2014 jókst veltan á fasteignamarkaði um 16,4% en á höfuðborgarsvæðinu árið 2014 nam veltan samtals um 205 millj­ örðum króna. Þrátt fyrir þessa veltuaukningu er hún mun minni en hún var í sínum hæstu hæðum árið 2007.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .