Harry Bretaprins og leikkonan bandaríska, Meghan Markle gengu í heilagt hjónaband í kapellunni í Windsor kastala fyrr í dag. Um 600 gestum var boðið að vera við athöfnina sjálfa en um 2.600 almennum borgurum var boðið að vera í húsinu. Um 200 verða svo í veislunni sem er í kvöld. Eldræða bandaríska predikarans og biskupsins Michael Curry við athöfnina hefur vakið athygli víða.

Kostnaðurinn við brúðkaupið er sagður vera greiddur af drottningunni og prinsinum sjálfum, það er fyrir utan kostnaðinn af öryggisgæslunni í kringum viðburðinn sem samsvarar um 4,4 milljörðum íslenskra króna. Þannig voru um 5 þúsund lögreglumenn á vakt í brúðkaupinu árið 2011, og gæti um svipaður fjöldi núna staðið vaktina.

Sá kostnaður fellur á breska skattgreiðendur. Áætlaður kostnaður við brúðkaupið sjálft er svo talinn hlaupa á allt að 2 milljónum punda, eða sem samsvarar um 283 milljónum króna. 90 þúsund pund af því fara í kostnað við sérstaka 20 trompeta sem smíðaðir verða sérstaklega fyrir veisluna.

Konunglegir stimplar eftirsóttir

26 þúsund pund fara í kostnað við mat fyrir almenning sem fær að vera viðstaddur, það er um 4 milljónir króna.  En síðan bendir ýmislegt til að ýmis annar kostnaður fáist á töluvert lægra verði en gengur og gerist, einmitt vegna þess að fyrirtæki keppast við að geta státað sig af tengslunum við konungsfjölskylduna.

Þannig er talið að floti Rolls Royce bíla sem fjölskyldan noti samkvæmt sérstökum samningi við fyrirtækið fáist á lægra verði en hinn almenni notandi þyrfti að greiða. Kjóll Meghan Markle er síðan talin kosta allt að 15 milljónir króna, sem er þó lág upphæð miðað við flesta kjóla í konunglegum brúðkaupum. Meghan sjálf er sögð hafa viljað greiða fyrir hann.

Blómaskreytingarnar eru taldar kosta um 14 milljónir, en þar er líklegt að stór hluti komi frá görðum drottningarinnar sjálfar. Giftingarhringurinn, vagnar, húsnæði og margt annað er þegar í eigu fjölskyldunnar, þó skattgreiðendur þurfi eða hafa þurft í gegnum tíðina að greiða fyrir eða sleppa tekjum af þeim í mörgum tilvikum.

Kakan kemur frá Violet bakaríinu sem hefur verið vinsælt hjá hipsterum í austurhluta London, en þar sem það óvenjulega skref var tekið að nefna bakaríið fyrir fram hefur það orðið mjög vinsælt síðan. Kaka ofan í 600 gesti er talin geta kostað um 300 þúsund krónur, en líklega mun minna eða jafnvel ekkert vegna þess að í raun er um fría auglýsingu að ræða.

Fyrirtæki sem selt hafa konungsfjölskyldunni kampavín í fimm ár eða lengur fá sérstakan konunglegan stimpil og er líklegt að þau hafi barist um hituna um að fá að bjóða fram kampavínið fyrir veisluna. Bollinger er þar líklegast, en það var í brúðkaupi Karls Bretaprins og bróður hans Andrew, en það hefur verið með slíkan stimpil frá tímum viktoríu drotningar árið 1884.

Hér má sjá ræðu prestsins við athöfnina: