Brunnur vaxtarsjóður, sem Landsbréf og SA Framtak GP reka, tapaði 244 milljónum króna á síðasta ári, sem er aukning um 156 milljónir frá fyrra ári.

Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi-Lífeyrissjóður og Birta eru stærstu hluthafa sjóðsins, með samanlagt 75% hlut, og svo á Landsbankinn rúmlega fimmtungs hlut, að því er Fréttablaðið greinir frá.

Sjóðurinn var stofnaður í febrúar árið 2015 til að fjárfesta í íslenskum sprota- og vaxtarfyrirtækjum, og nam eigið fé hans 795 milljónum króna í lok síðasta árs. Jókst eigið fé sjóðsins þrátt fyrir þetta um 514 milljónir á milli ára.

Á árinu fjárfesti sjóðurinn í tveimur nýjum félögum, DT Equipment og Oculis, en fyrir átti sjóðurinn hlut í Ark Technology og ATMO Select, en virði þess síðastnefnda var fært niður á árinu.

Var bókfært virði félagsins 40 milljónir fyrir 28,3% eignarhlut í lok síðasta árs, en ári áður var 18,4% hlutur metinn á 100 milljónir. En 44% hlutur sjóðsins í Ark Technology var metinn á tæpar 150 milljónir í lok síðasta árs.