Opinber fjárfesting í innviðum á borð við vegi, brýr, holræsi og önnur mannvirki hefur dregist saman á undanförnum árum, þrátt fyrir uppsafnaða fjárfestingarþörf vegna fólksfjölgunar, aukins ferðamannastraums og viðhaldsþarfar. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar um fjármunaeign, fjármunamyndun og afskriftir hins opinbera.

Tölurnar leiða í ljós að frá árinu 2010 og til ársins 2014 var gengið á fjármunaeign hins opinbera sem nemur um 21,4 milljörðum króna, en hún samanstendur af fjárfestingum þess í fastafjármunum. Þessar tölur bera þess vitni að fjárfestingum hafi verið slegið á frest til þess að draga úr hallarekstri ríkissjóðs á þessu tímabili, en samkvæmt greiningu Við­ skiptaráðs frá því fyrir ári má rekja rúmlega fimmtung af bættri rekstrarafkomu ríkissjóðs, eða um 24 milljarða króna á tímabilinu 2009 til 2014 til frestunar á fjárfestingum.

Heldur ekki í við fólksfjölgun

Ef litið er til einstakra flokka innviða í opinberri eigu hefur verið virðisrýrnun á þeim öllum á tímabilinu 2010 til 2014 nema byggingum hins opinbera, en verðgildi þeirra hefur aukist um 0,41%. Mest hefur virðisrýrnunin verið á götum og holræsum á tímabilinu, eða um 1,50%. Verðmæti vega og brúa hefur einnig minnkað, eða um 0,56%.

Þó að fjárfesting hins opinbera í innviðum hafi gefið nokkuð eftir á undanförnum árum er útlit fyrir að hún muni rétta lítillega við sér á næstu þremur árum, ef marka má spá Seðlabankans í síðasta riti Peningamála um fjármunamyndun hins opinbera. Sé miðað við spá bankans mun fjármunaeign hins opinbera vaxa úr 1.412 milljörðum króna eins og hún er nú og verða 1.444 milljarðar árið 2017, að því gefnu að afskriftarhlutfall haldist hið sama og meðaltal seinustu tíu ára.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .