„Þetta var fróðlegur fundur og það voru aðallega tveir verjendur sem fóru yfir sönnunarfærslur og gagnrýndu dóminn hvað það varðar. Þetta voru almennar umræður og allir hafa sínar skoðanir,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem tók þátt í panelumræðu á fundi í fyrradag sem Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar, skipulagði fyrir aðstandendur sakborninga í Al-Thani málinu. Um 250 manns mættu á fundinn .

„Ég þekki málið frá því ég var verjandi manns í rannsókn málsins sem var ekki ákærður og þekki sönnunargögnin. Mér finnst Hæstiréttur draga rangar ályktanir og gefur sér forsendur sem ekki standa og ég er ósammála. Ég er líka ósáttur við hvernig tekið var á ómerkingarkröfu og það að verjendur hafi ekki fengið gögnin. Þegar maður les dóminn þá virðist hvorki hafa verið vörn né sókn. Hérðsdómur ýtir þessu í burtu og Hæstiréttur tekur bara gögnin og býr til sinn eigin dóm og gerir eigin ályktanir sem aldrei voru ræddar í Héraðsdómi. Það er mjög sérstakt hvernig Hæstiréttur afgreiddi þetta.“

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins tóku til máls Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, og Ólafur Eiríksson, verjandi Sigurðar Einarssonar. Auk þess mætti Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, á fundinn til þess að tjá skoðun sína á dómnum.

Málið á rætur að rekja til hlutabréfakaupa Mohammad Bin Khalifa Al-Thani í Kaupþingi þann 22. september árið 2008. Þá keypti félag hans 5,01% í bankanum og borgaði 25,7 milljarða króna fyrir hann með láni frá bankanum. Dómur féll í málinu þann 12. febrúar síðastliðinn þar sem allir sakborninganna, þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson, voru sakfelldir.