Stjórn BSRB (Bandalag starfsmanna ríkis og bæja) íhugar nú hvort bandalagið muni koma að stofnun íbúðafélags ásamt Alþýðusambandi Íslands (ASÍ). Félagið mun verða leigufélag sem rekið verður án hagnaðarsjónarmiða. Skýrast mun á næstu vikum hvort og hvernig BSRB mun taka þátt í stofnun íbúðafélagsins.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, kynnti áform um stofnun íbúðafélagsins við hátíðarhöld vegna 100 ára afmælis ASÍ um helgina. Félagið mun þá hafa það hlutverk að byggja fjölda leiguíbúða og leigja lágtekjufólki á viðráðanlegu verði. Skrifað var undir samning við Reykjavíkurborg um helgina um að borgin sjái félaginu fyrir lóðum fyrir 1.000 íbúðir á næstu fjórum árum.

Íbúðafélagið verður sjálfseignarstofnun með takmarkaða ábyrgð. Áður en hægt verður að stofna íbúðafélagið þarf Alþingi að samþykkja frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra.