Fyrirtækið Solid Clouds sem vinnur að gerð tölvuleiksins Starborne jók á dögunum hlutafé sitt í þriðja sinn og sér félagið fram á frekari fjármögnun á komandi mánuðum. Mikill áhugi virðist vera á leiknum innan tölvuleikjageirans en hann verður sá stærsti frá því að Eve Online kom út.

Einn milljarður dollar í tekjur

„Leikurinn byggist í raun í kringum risastórt kort sem er með 1,5 milljónir reita og getur haft 5-20 þúsund spilara. Þegar þátttakandi er búinn að skrá sig inn þá sér hann kortið og getur hafið leik. Til þess að einfalda þetta mjög þá má hugsa um þetta eins og borðspil á borð við Risk en í staðinn fyrir að 3-5 komi saman eina kvöldstund og spili þá eru spilararnir mörg þúsund og hver leikur tekur 6 mánuði,“ útskýrir Stefán Björnsson, einn eiganda félagsins, og bætir við að leikurinn skipi sér í hóp með mjög sérhæfðri tegund af tölvuleikjum en þrátt fyrir það hafi heildartekjur sambærilegra leikja verið 600 milljónir dollara í árslok 2014 og búast megi við því þær verði allt að 1 milljarður dollara í árslok 2015. Það er augljóst að þungavigtarmenn í íslenska tölvuleikjabransanum hafa mikla trú á verkefninu en eins og þeir félagar benda á þá eru þónokkrir sem unnu að Eve Online viðloðandi verkefnið. Þar má helst nefna Ásgeir Ásgeirsson sem nú er listrænn stjórnandi fyrirtækisins (e. art director) og Hrafnkel Smára Óskarsson sem var einn af upphaflegum leikjahönnuðum Eve Online. Þá er stjórnarformaður Solid Clouds Sigurður Arnljótsson sem var áður forstjóri CCP.

Finna fyrir miklum meðbyr

Stefán og Stefán Gunnarsson, framkvæmdarstjóri félagsins, segjast finna fyrir miklum meðbyr en Solid Clouds sótti til að mynda ráðstefnuna Nordic Next í júní þar sem allir helstu fjárfestar Norðurlanda í nýsköpun komu saman í Malmö í Svíþjóð. Var fyrirtækið fyrsta íslenska nýsköpunarfyrirtækið sem hlýtur boð á þessa virtu ráðstefnu. Þá var félaginu jafnframt boðið að sýna Starborne á Gamescom sem er stærsta tölvuleikjasýning í Evrópu og verður hluti af kynningarsvæði Unity Technologies. Unity þróunarumhverfið, sem stofnað var af Íslendingnum Davíð Helgasyni, hefur notið sívaxandi vinsælda meðal leikjafyrirtækja á síðustu misserum og var nú síðast notað við smíði leiksins Pokémon Go sem er að slá í gegn um heim allan.

„Við notumst við tæknina þeirra og þeir hafa verið mjög hrifnir af því sem við erum að gera og buðu okkur þess vegna sérstaklega að vera inni á básnum þeirra á ráðstefnunni sem verður núna í ágúst,“ segir Stefán B. Þá segir Stefán G líka vert að þakka Innovation House en þeir hafi stutt mikið við félagið og það sama megi segja um Tækniþróunarsjóð Íslands sem hann lýsir sem bæði faglegri og virkri stofnun þegar komi að stuðningi við íslensk frumkvöðlafyrirtæki.

Raunhæft að vera með 2-3 milljónir notenda

En hvað greinir ykkur helst frá öðrum sambærilegum leikjum á markaðnum? „Við erum að koma inn með ný leikkerfi og nýja sýn á það hvernig notandinn nálgast leikinn, þ.e. kortið sjálft. Þá eru aðrir sambærilegir leikir ennþá í 2D en okkar leikur er í 3D.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Leiðrétting: Í útgáfu okkar var rangt farið með nafn Sigurðar Arnljótssonar, stjórnarformanns Solid Clouds, og hann sagður Árnason. Það leiðréttist hér með og biðjumst við velvirðingar á mistökunum.