Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing, greindi frá því fyrr í dag að fyrirtækið búist við að Indversk flugfélög muni panta allt að 2.100 flugvélar frá fyrirtækinu á næstu 20 árum. Samkvæmt frétt Reuters mun andvirði pantanna nema um 290 milljörðum dollara.

Hefur Boeing talað um spánna sem þá stærstu sem fyrirtækið hefur gefið út fyrir Indland sem er þriðja stærsta hagkerfi Asíu. Mikil vöxtur hefur verið í flugsamgöngum í landinu og hefur vöxtur í innanlands flugi numið um 20% á ári á síðastliðnum árum.

Þá greindi fyrirtækið einnig frá því að gert er ráð fyrir 8% vexti í fjölda flugfarþega í Suður-Asíu á næstu 20 árum samanborið við 4,7% vöxt á heimsvísu. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að eftirspurn eftir flugvélum á heimsvísu muni nema 41.030 vélum á næstu 20 árum sem þýðir að félagið gerir ráð fyrir að Indlandsmarkaður muni standa fyrir um 5% af heildar eftirspurninni.