Samdráttur í argentínsku efnahagslífi mun ná hámarki á fyrsta ársfjórðungi 2019 en hagkerfið mun byrja að taka við sér á nýjan leik á öðrum ársfjórðungi. Þetta kom fram í máli Roberto Cardarelli á laugardag en hann er yfir málefnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) gagnvart Argentínu. Bloomberg greinir frá.

AGS hefur nú veitt Argentínu neyðarlán fyrir 56,3 milljarða dollara. Samkomulagið náðist upphaflega i júní síðastliðnum en var endurskoðað í september. Þrátt fyrir að AGS búist við því að hagkerfi landsins taki við sér þá tók Cardarelli það fram að töluverðar áskoranir og óvissuþættir væru til staðar á borð við lækkanir á mörkuðum nýmarkaðsríkja, forsetakosningar í landinu á næsta ári og aðhaldssamari peningastefnu í Bandaríkjunum.

„Það er mikið af áhættuþáttum til staðar. Einn af þeim er að verðbólga taki ekki að lækka eins fljótt og við höfum verið að gera ráð fyrir. Verði það raunin er ljóst að það verður nauðsyn fyrir aðhaldssamari peningastefnu til lengri tíma,“ sagði Cardarelli.

AGS gerir auk þess ráð fyrir að hagkefi Argentínu muni dragast saman um 1,6% á næsta ári. Er það hálfu prósentustigi meiri samdráttur en stjórnvöld þar í landi hafa gert ráð fyrir.