Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Bubba Morthens og Ríkisútvarpið til að greiða Steinari Berg Ísleifssyni 250 þúsund krónur í miskabætur eftir ummæli sem hann lét falla í þættinum Popp og rokksaga Íslands. Þetta kemur fram á mbl.is .

Í þættinum staðhæfði Bubbi að Steinar Berg hafi mokgrætt á hljómsveit hans Ego og Utangarðsmenn. Þá sagði Bubbi að fyrirtæki hans hafi nýtt sér þekkingar og reynsluleysi hljómsveitarinnar.

Voru þessi ummæli Bubba dæmd dauð og ómerk ásamt færslu sem birt var á samskiptamiðlinum Facebook þann 15. mars 2016:

„Niðurstaðan er og verður sú að samningar þínir við Ego og Utangarðsmenn voru gerðir af fyrirtæki með yfirburðaþekkingu á öllum hlutum á meðan við vorum með því miður enga yfirsýn yfir neitt og algerlega blautir á bakvið eyrun. Þú nýttir þér það.“

Steinar Berg fór fram á að Bubbi yrði dæmdur til refsingar en dómurinn féllst ekki á þá kröfu.