Stjórnarandstaðan í Venesúela hefur ráðið lögmanninn og Íslandsvininn Lee Buchheit að því er FT greinir frá . Hann er sérfræðingur í málefnum skuldsettra ríkja og var íslenska ríkinu innan handar í Icesave deilunni og samningum við kröfuhafa föllnu bankanna.

Skuldastaða Venesúela er þung og ríkið hefur verið í vanskilum með stóran hluta skulda sinna. Vogunarsjóðir og aðrir fjárfestar hafa keypt skuldabréf Venesúela fyrir lítið í von um að hægt verði að innheimta hluta krafnanna. Ráðning Buchheit þykir benda til þess að stjórnarandstaðan muni leggja til að hart verði tekið á kröfuhöfunum.

Stjórn Nicolas Maduro, forseta Venesúela, hefur átt í viðræðunum við kröfuhafana en lítið hefur komið út úr þeim enn sem komið er. Buchheit hefur lagt til að Bandaríkin beiti forsetatilskipun til að kyrrsetja eignir venesúelska ríkisins í Bandaríkjunum. Með því móti megi hindra að einstaka kröfuhafar reyni að komast framar í kröfuhafaröðina með því að haldleggja einstaka eignir Venesúela á bandarískri grundu. Með því móti megi ná heildstæðri og mun fljótlegri niðurstöðu í skuldamál Venesúela, í stað þess að þurfa að semja við hvern kröfuhafa fyrir sig.

Buchheit rukkar ekkert fyrir störf sín fyrir stjórnarandstöðuna í Venesúela. Lögfræðingurinn hefur komið að endurskipulagningu skulda fjölmargra ríkja í gegnum árin, til að mynda Grikklands árið 2012. Þá vann hann áður að skuldavanda Írak og Úrúgvæ fyrr á þessari öld, Rússland og Ekvador á tíunda áratugnum og Mexíkó og Filippseyjar á níunda áratugnum. Buchheit lét af störfum hjá lögfræðistofunni Cleary Gottlieb fyrr að þessu ári en stofan vinnur fyrir einn stærsta kröfuhafa Venesúela.