Þó Anheuser-Busch InBev hafi að undanförnu eytt morðfjár í að auglýsa helstu afurðir sínar, bjórana Budweiser og Bud Light, heldur sala þeirra áfram að minnka í Bandaríkjunum. Fyrirtækið tilkynnti í dag að sala bjóranna hafi minnkað um nokkur prósent á öðrum ársfjórðungi.

„Við getum og verðum að gera betur með Bud Light,“ sagði Carlos Alves de Brito, framkvæmdastjóri AB InBev. CNN Money greinir frá þessu.

Bandaríkjamenn eru loksins að uppgötva fleiri bjórtegundir heldur en Bud Light, sem fær 1,2 af 5 mögulegum á vefsíðunni RateBeer . Uppgangur örbrugghúsa hefur verið stöðugur þar í landi og hefur AB InBev reyndar keypt slík brugghús í stórum mæli að undanförnu.

Hlutabréfaverð Anheuser-Busch InBev lækkaði um 4,6% í dag í kjölfar tíðindanna. Hlutabréfaverðið hefur þó hækkað um 9% það sem af er ári. Fyrirtækið framleiðir enda nokkra aðra vel þekkta bjóra - meðal annars Stella Artois og Hoegaarden - og hefur gengið mjög vel í mörkuðum á borð við Mexíkó.

Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma og AB InBev kaupir örbrugghús byggir það markaðssetningu sína á Budweiser á því að gera lítið úr slíkum brugghúsum, eins og sjá má á þessari auglýsingu sem frumsýnd var á Super Bowl.