Fyrirtæki í eigu bandaríska fjárfestingarisans Berkshire Hathaway hefur keypt 3% hlut í þýska efnaframleiðandanum Lanxess AG. Forstjóri og stærsti eigandi Berkshire Hathaway er Warren Buffet, fjórði ríkasti maður heims.

Hlutabréfaverð Lanxess hefur hækkað um 5,7% það sem af er degi eftir að yfirlýsing um kaupin var birt fyrr í dag. Fram að því hafði gengi bréfa félagsins lækkað um 8% frá 11. maí þegar forstjóri fyrirtækisins greindi frá því að stjórnendur sæu fram á hægari vöxt á seinni helmingi ársins en gert hafði verið ráð fyrir.

Kaupin sem fóru fram 19. maí síðastliðinn gera General Reinsurance AG dótturfyrirtæki Berkshire að sjötta stærsta eiganda fyrirtækisins. Meðal annara stærstu eigenda fyrirtækisins eru þýska fjármálafyrirtækið Allianz, stærsta eingarstýringarfyrirtæki heims Blackrock og norski olíusjóðurinn.

Berkshire hefur ferið að auka fjárfestingar sínar í Þýskalandi og keypti fyrr á árinu allt hlutafé í lagnafyrirtækinu Wilhelm Schulz GmbH.