Warren Buffett hefur í gegnum tíðina verið andvígur því að fjárfesta í flugrekstri. Stundum hefur því verið haldið fram að hann sé hreinlega með manneskju í vinnu, sem á að tryggja það að hann fjárfesti ekki í flugfélögum.

Einu frávik Buffetts voru lengi vel fjárfesting hans í einkaþotufyrirtækinu NetJets og FlightSafety flugskólanum. Í nóvember í fyrra tók hann þó stöður sem komu mörgum á óvart.

Berkshire Hataway fjárfesti í American, United Continental og Delta. Stuttu síðar tilkynnti Buffett einnig að félagið hafi keypt bréf í Southwest.

Sumir hafa velt því fyrir sér hvort að hann hafi með kaupunum gert stórkostleg mistök eða hvort að manneskjan sem átti að halda honum frá flugfélögum hafi einfaldlega fallið frá. Líklegast þykir þó að þessi flugfélög séu undirverðlögð að hans mati og eigi þar með eftir að skila góðri ávöxtun á næstu árum.

Síðasta kenningin virðist einnig vera að sanna sig, en frá því að Berkshire tók stöðurnar, hafa þessi flugfélög hækkað talsvert í verði. Delta hefur hækkað um 6%, American um 7%, Southwest um nánast 13% og United um heil 14%.