Risafjárfestirinn Warren Buffett segist dást að Bernie Sanders, þingmanni Demókrataflokksins, sem býður sig fram gegn Hillary Clinton í forvali flokksins í forsetakosningum Bandaríkjanna.

Buffet sagðist í viðtali við CNBC í nýliðinni viku dást að því hvernig Sanders hefur hagað kosningabaráttu sinni.

„Mér finnst framboð Bernie Sanders hafa verið frábært. Hans kosningabarátta er nákvæmlega eins og mín yrði ef ég myndi bjóða mig fram,“ sagði Buffett.

Jákvæðni Buffett í garð Sanders er athyglisverð í ljósi þess að sá síðarnefndi hefur talað fyrir róttækum skattbreytingum í garð efnaðra aðila. Sjálfur vill Buffett að þeir ríkari borgi hærri skatta en Sanders gengur þó of langt að hans mati.

Buffett dáist hins vegar að því að Sanders hafi engum tíma eytt í að gagnrýna mótframbjóðanda sinn, Hillary Clinton.

„Hann eyðir ekki tíma í að tala um annað fólk. Hann kynnir bara sín stefnumál og það er til fyrirmyndar. Hann verður ekki kosinn, en ég dáist að honum,“ bætti Buffett við.