Warren Buffett, hinn heimsfrægi milljarðamæringur og stjórnarformaður Berkshire Hathaway, segir að fjárfestar ættu að vera reiðir yfir þeim háu þóknunum sem þeir borga sjóðstjórum vogunarsjóða sem ná ekki einu sinni að ávaxta betur en vísitölusjóðir.

„Fólk á Wall Street hefur skapað sér miklu, miklu, miklu meiri tekjur með sölukunnáttu en með fjárfestingarkunnáttu,“ sagði Buffett á aðalfundi Berkshire, sem haldinn var í gær í heimabæ Buffett og Berkshire, Omaha í Nebraska.

Buffett sagði að hefðbundið þóknanafyrirkomulag vogunarsjóða, þar sem rekstrarfélagið fær árlega tvö prósent af eignum sjóðsins ásamt 20% af hagnaði, væri ótrúlegt.

„Fólk sem á að teljast vera fágað, yfirleitt ríkt fólk, ræður sér ráðgjafa. Og enginn ráðgjafi í heiminum mun segja þér að kaupa bara í vísitölusjóði og sitja á fjármununum í 50 ár,“ sagði Buffett. „Þú færð ekki að vera ráðgjafi ef þú veitir þá ráðgjöf, og þú færð svo sannarlega enga árlega þóknun þannig.“

Með peninga undir

Árið 2008 gerði Buffett veðmál við Protege Partners um að fjárfestingastefna fyrirtækisins, sem felst í að fjárfesta í ýmsum vogunarsjóðum, myndi ekki reynast betri en að fjárfesta í vísitölusjóði sem eltir S&P 500 vísitöluna. Sigurvegarinn fær 1 milljón dollara þegar veðmálinu líkur, sem er í lok næsta árs.

Protege Partners þarf aldeilis að spýta í lófana ef fyrirtækið ætlar að vinna veðmálið. Ávöxtun vogunarsjóðanna sem þeir fjárfesta í er samtals 21,9% yfir átta ár. Ávöxtun S&P 500 vísitölunnar er 65,7% á sama tímabili.

Frétt Bloomberg.