Bormenn í Óshlíðargöngum héldu í jólafrí um helgina eftir góðan árangur frá því byrjað var á að sprengja göngin í haust. Er nú búið að sprengja 27,5% af göngunum. Rúnar Ágúst Jónsson staðarstjóri Ósafls, sameiginlegs fyrirtækis ÍAV og svissneska félagsins Marti Contractors, segir að vinna hefjist aftur 5. janúar.

Gröftur Óshlíðarganga gekk misjafnlega í síðustu viku (viku 50). Frá Bolungarvík gekk mun hægar vegna erfiðs bergs og voru sprengdir 34 metrar og var lengdin þar orðin 816 metrar í vikulokin.

“Við lentum í slappari setlögum og lausu bergi. Það er þó ekkert alvarlegt,” segir Rúnar. “Annars hefur gengið mjög vel að sprengja göngin fram að þessu. Vegagerðin út frá gangamunnum er samkvæmt áætlun, en hún byggir á efni sem fæst úr göngunum."

Frá Hnífsdal gekk mjög vel og voru sprengdir 70 metrar og var lengd þar 606 metrar í vikulokin. Samtal voru því sprengdir 104 metrar frá báðum endum í síðustu viku og er lengd ganganna því komin upp í 1.422 metra. Það eru um 27,5% af heildarlengd ganganna sem verða 5,1 kílómetri auk 300 metra vegskála.   Rúnar segir að um 55 manns hafi starfað við gangagerðina frá báðum endum, en áætlað er að þeir ljúki endanlega við verkið þann 15. júlí árið 2010.