Hrafnreyður KÓ veiddi eina hrefnu í Faxaflóa sl. mánudag. Þá er búið að veiða 46 hrefnur í sumar. Um var að ræða tæplega níu metra langan tarf. Kjötið var tekið út af dýralækni í gærdag og var vinnsla byrjuð snemma í morgun. Kjötið verður síðan komið í verslanir fyrir helgina, að því er segir á vef Félags hrefnuveiðimanna.

Nokkuð er af hrefnu í Faxaflóa þrátt fyrir mikla makrílgengd. Mikil ferð er á dýrunum og greinilegt að þau þurfa að hafa nokkuð fyrir fæðunni, enda ekki skrítið þegar makríllinn hefur ryksugað upp flóann, segir á vef Félags hrefnuveiðimanna.