„Ég er búinn að stúdera geimferðir í mörg ár. Alveg frá því ég var lítill langaði mig út í geim. Svo þegar var það allt í einu möguleiki þá varð draumurinn að rætast,“ segir athafnamaðurinn Gísli Gíslason. Hann mun 25. mars næstkomandi fara til Philadelphia í Bandaríkjunum og fá þar þjálfun fyrir ferð með geimskutlunni Virgin Galactic út fyrir gufuhvolf jarðar. Undirbúningurinn fer fram í Nastar Center, helstu miðstöð í heimi fyrir geimfara. Hvorki liggur fyrir hvenær geimskutla Virgin Galactic fer út í geim né hvenær Gísli fer í loftið.

Sir Richard Branson, forsvarsmaður Virgin Galactic, hafði áform um að koma skutlunni út í geim í fyrra. Af því varð ekki því enn er unnið að því að gera geimskutluna nógu kraftmikla.

Með fyrstu geimferðinni verða stigin fyrstu skrefin í átt að geimferðaþjónustu þar sem þeir sem hafa ráð á geta keypt sér miða út í geim. Aðeins sex farþegar komast í hverja ferð sem varir í um tvær klukkustundir. Miðaverðið er í samræmi við það eða um 200 þúsund dollarar, í kringum 22-23 milljónir króna. Nú þegar eru rúmlega 600 miðar seldir í ferðir Virgin Galactic út í geim. Sala í geimferðirnar hófst árið 2011 og var Gísli fljótur að tryggja sér miða. Miði Gísla er á milli 250 til 260 og bindur hann vonir við að hann fái boð um geimferðina innan 2-3 ára.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .