Búist er við að fimm umsvifamestu bankar Grikklands sem þátt tóku í fjárhagslegri endurskipulagningu landsins svipti í dag hulunni af tugmilljarða evra tapi eftir síðasta ár. Uppgjör bankanna fyrir síðasta ár verða birt eftir lokun markaða í Evrópu síðar í dag.

Bankarnir eru Alpha Bank, Piraeus Bank, gríski landsbankinn og Eurobank auk ATEbank, sem er í eigu gríska ríkisins.

Fram kemur í netútgáfu Financial Times að bankarnir hafi átt grísk ríkisskuldabréf upp á 42 milljarða evra fyrir skuldaleiðréttingu Grikklands og megi gera ráð fyrir að í samræmi við hana hafi allt að 33 milljarðar gufað upp úr eignasafni þeirra. Tapið kann að vera hlutfallslega mismikið eftir því hvernig bankarnir reikna það út og hvort tekið sé tillit til skatta og gjalda.