Búist er við því að Donald Trump skipi nýjan seðlabankastjóra í Bandaríkjunum um klukkan sjö í dag á íslenskum tíma. Líklegast þykir að hann skipi Jerome Powell en hann hefur setið í stjórn bankans frá árinu 2012. Verði Powell fyrir valinu er jafnframt búist við því að stefna bankans haldist í megindráttum sú sama.

Jerome Powell hefur verið bandamaður núverandi seðlabankastjóra, Janet Yellen, í helstu aðgerðum bankans á undanförnum árum. Hann hefur bæði varið neyðaraðgerðir bankans til þess að örva efnahaginn og að bankinn stundi svokallaða framsýna spá sem felst í því að bankinn gefur til kynna hverjar framtíðaraðgerðir hans verða. Þá hefur hann gefið til kynna að hann telji bankann eiga að halda sig við lága vexti eins lengi og þörf þykir en Donald Trump, bandaríkjaforseti, hefur kallað eftir því að vextir verði áfram lágir.

Powell er menntaður í lögfræði við Georgetown háskóla í Bandaríkjunum og var skipaður meðal æðstu manna í fjármálaráðuneytinu í Bandaríkjunum í forsetatíð George HW Bush.

Einnig hefur verið nefndur til sögunnar John Taylor , prófessor við Stanford háskóla, en eftir honum er hin svokallaða Taylor regla nefnd í peningamálafræðum. Yrði Taylor fyrir valinu búast álitsgjafar við því að stýrivextir hækki enda sé Taylor reglunni beitt miðað við núverandi efnahagsaðstæður í Bandaríkjunum ættu vextir að vera yfir 3% frekar en 1-1,25% eins og þeir eru núna.

Undanfarna daga hefur Trump þó farið lofsyrðum um Janet Yellen sem hefur aftur ýtt vangaveltur hvort svo ólíklega fari að forsetinn endurskipi hana. Yellen er fyrsta konan til þess að gegna stöðunni en yrði jafnframt fyrsti seðlabankastjórinn til þess að vera ekki endurskipuð í fjóra áratugi . Síðustu þrír fyrirrennarar hennar hafa allir verið endurskipaðir af forseta úr gagnstæðum flokki við þann sem fyrst skipaði. Flestir álitsgjafar eru sammála um að Yellen hafi tekist vel til við að þræða einstigið á milli þess að hækka vexti í brothættum efnahagsaðstæðum og skilja eftir slaka of lengi. Það sem talið er helst vinna gegn henni er að hún var skipuð í embætti af Barack Obama.