Ummæli seðlabankastjóra Evrópu, Mario Draghi, í dag hafa almennt verið túlkuð á þá leið að búast megi við því að enn verði stigið á bensíngjöfina í skuldabréfakaupum bankans og það jafnvel á þessu ári. Seðlabankinn hélt stýrivöxtum sínum óbreyttum á fundi bankastjórnarinnar í dag.

Seðlabankinn hefur verið að kaupa skuldabréf á markaði fyrir 60 milljarða evra á mánuði með það að markmiði að ýta undir verðbólgu, sem hefur verið nærri núllinu í nokkuð langan tíma.

Vísitala neysluverðs á evrusvæðinu féll hins vegar um 0,1% í september og er verðbólga langt frá markmiði seðlabankans.

Sagði Draghi að þessi skuldabréfakaup þyrftu endurskoðunar við á fundi bankastjórnarinnar í desember.