*

laugardagur, 17. nóvember 2018
Innlent 7. nóvember 2018 19:03

Búllan í sókn í Þýskalandi

Þriðja Hamborgarabúllan Tómasar var opnuð í Berlín í dag. Opna á fleiri veitingastaði í Þýskalandi á næstunni.

Ingvar Haraldsson
Opnun á þriðja stað Hamborgarabúllu Tómasar í Berlín.
Aðsend mynd

Forsvarsmenn Hamborgarabúllu Tómasar eru í sóknarhug og stefna á vöxt í Þýskalandi næstu misserin. Þriðja Hamborgarabúllan var opnuð í Berlín í dag. „Við ætlum að einbeita okkur að Þýskalandi og stækka þar,“ segir Ingvi Týr Tómasson, forstjóri TBJ hf., rekstrarfélags Hamborgarbúllu Tómasar. Ingvi er sonur Tómasar  A. Tómassonar sem er kenndur við Búlluna. Synir og tengdadóttir Tómasar, þau Ingvi Týr, Kristín Gunnarsdóttir og Tómas Áki stofnuðu Hamborgarabúlluna árið 2004 ásamt fyrrnefndum Tómasi og Erni Hreinssyni. Feðgarnir hafa starfað saman í veitingageiranum með hléum frá árinu 1981. Blaðamaður Viðskiptablaðsins settist niður með Ingva Tý og Tómasi á skrifstofu Hamborgarabúllunnar í Kringlunni.

 „Ég byrjaði að pressa hamborgara fyrir Tommaborgara í Kjötvinnslu Jónasar sumarið 1981,“ segir Ingvi, þá þrettán ára gamall.  Þá störfuðu þeir feðgar saman á Hótel Borg, Skuggabarnum og Hard Rock þar sem Ingvi var rekstrarstjóri staðarins lengst af.

Hamborgaraalda í Þýskalandi

 „Við munum sennilega bæta við þremur stöðum í Þýskalandi á næsta ári og ég myndi halda einum stað til viðbótar á öðrum markaði,“ segir Ingvi.

„Við horfum á Þýskaland sem mikið vaxtarsvæði fyrir okkur. Það er mikil hamborgaraalda í gangi þar og stöðugt umhverfi hvað varðar kostnað og fleira. Svo er líka ekki eins mikil samkeppni og á sumum öðrum mörkuðum,“ segir Ingvi. Staðurinn í Berlín er sá fyrsti sem Hamborgarabúllan opnar síðasta árið. Í dag er hamborgarabúllan starfrækt í 6 löndum með 19 veitingastaði. Auk Berlínar eru veitingastaðir undir merkjum Tommi´s Burger Joint reknir í Róm, Osló, London og Kaupmannahöfn, til viðbótar við sjö staði á Íslandi.  Áherslan undanfarin tvö ár hafi fyrst og fremst verið að skipuleggja reksturinn í Evrópu. „Við erum búin að ná tökum á rekstrinum og búa til sterkari kerfi og ferla,“ segir Ingvi.

„Það er alltaf verið að bjóða okkur að opna einhvers staðar, nú síðast í vikunni í Amsterdam og búið að gera nokkrum sinnum. Svo erum við með mjög sterkan aðila sem vill opna með okkur á Spáni, en við höfum tekið þá ákvörðun að styrkja innviðina og ferlana áður en við förum á nýja markaði,“ segir Ingvi.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Úttekt á samruna WOW air og Icelandair. 
  • Umfjöllun um tvo nýja veitingastaði við sundlaugar borgarinnar.
  • Milljarða fjárfesting alþjóðlegs gagnaversfyrirtækis. 
  • Viðtal við Drífu Snædal, nýkjörinn forseta ASÍ.
  • Umfjöllun um uppgjör Skeljungs. 
  • Umfjöllun um skotveiði. 
  • Óðinn skrifar um Eflingu og leiguvandræðin. 
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað.
  • Týr fjallar um dóm MDE.