Margir stjórnarþingmenn segjast ekki munu samþykkja búvörusamningana í óbreyttri mynd. Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að klára samningana sem fyrst, og vilja þingmenn hans að þeir verði samþykktir áður en boðað er til nýrra kosninga.

Langur samningstími

Í febrúar á þessu ári undirrituðu Bændasamtök Íslands og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið búvörusamningana, en það sem er einna helst gagnrýnt er langur samningstími.

Er hann 10 ár, þó með tveimur endurskoðunum á samningstímanum. Hægt verður á afnámi beingreiðslna en jafnframt sérstakur býlisstuðningur tekinn upp.

Einnig verða magntollar á osti færðir til þess sem þeir voru árið 1995, sem myndi þýða hækkun úr 480 krónum í 1.000 krónur kílóið fyrir erlenda osta. Samrýmist þetta ekki nýjum tollasamningi Íslands við Evrópusambandið, sem gerir ráð fyrir verulegri aukningu á tollfrjálsum innflutningi á ostum.

Hagræðingarárangri stefnt í hættu

„Ég hef áhyggjur af því að verið sé að stefna í hættu þeim árangri sem við náðum í hagræðingunni. Mér finnst að úrvinnslan eigi að vera eins og aðrar greinar undir samkeppnislögum og mér finnst að við ættum að setja okkur metnaðarfyllri markmið þegar kemur að þessari atvinnugrein varðandi gæði og heilnæmi vörunnar,“  segir Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og heldur áfram:

„Síðan verðum við að skoða þessi mál í samhengi við tollasamninginn við ESB. Ég hef ekkert legið á þeirri skoðun minni að ég er mjög ósáttur við búvörusamningana eins og þeir liggja fyrir.“ Þetta kemur fram í frétt Vísis en þar segir jafnframt að hann muni gera hvað hann geti til að fá þeim breytt.

Vinstri-græn vilja meiri stuðning

Ekki virðast þó allir andstæðingar samningsins telja hann ganga of langt í að draga úr hagræðingu og sagði Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG ekki myndi samþykkja samninginn óbreyttann. Steingrímur kallar eftir meiri stuðningi við bændur í sínum ræðum á þingi sem og flokkssystir hans, Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður VG sem sagði á þingi 15. júní síðastliðinn:

„Við Vinstri græn viljum verja íslenska landbúnaðarframleiðslu og teljum að með þeim tollasamningi sem hér liggur fyrir sé verið að ógna landbúnaðarframleiðslu í landinu, og ekki bara henni heldur líka ótal atvinnugreinum sem starfa til hliðar við frumframleiðslu í landbúnaði.“ Þetta kemur fram í frétt á Vísi .