Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, hefur sent bankastjóra Landsbankans bréf þess efnis að bankinn sé velkominn með höfuðstöðvar sínar í bæinn. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

„Ég benti Landsbankanum á að við eigum talsvert land á besta stað á höfuðborgarsvæðinu, það er að segja á Glaðheimasvæðinu, rétt hjá Smáralind,“ segir Ármann, en Landsbankinn tilkynnti nýlega að hann hygðist byggja nýjar höfuðstöðvar við Austurhöfn í Reykjavík.

Hann segist um leið hafa boðið bankanum aðstoð bæjarins við frekari rýnivinnu, eins og til dæmis ferðatíma starfsmanna til og frá vinnu. Ekki er talað um verð í bréfinu, heldur aðeins boðið upp á viðræður komi til þess að Landsbankinn endurskoði afstöðu sína.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, sagði í samtali við Fréttablaðið að hann hefði ekki heyrt af bréfinu, en sú lóð sem bankinn hafi þegar valið passi best við forsendur bankans.