Kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík voru kynnt fyrir fullu húsi í Iðnó í dag. Þar kynnti Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins sjö helstu kosningaloforðin flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Er loforðunum sjö ætlað að boða grundvallarbreytingar á þeim helstu málaflokkum sem snerta íbúa borgarinnar, má þar nefna aðgerðir í húsnæðismálum, ferðatíma til og frá vinnu, álög á íbúa, sérstaklega eldri borgara, aðgengi að leikskólaplássum, styttingu afgreiðslutíma erinda við borgarkerfið og hreinsun umhverfisins, sérstaklega loftgæða í borginni.

Kosningaloforðin eru sem hér segir ásamt nánari útskýringum Eyþórs:

  • 1) 2.000 íbúðir verði byggðar að jafnaði á ári á kjörtímabilinu

„Í fyrsta lagi ætlum við að ná jafnvægi á húsnæðismarkaðnum, en á síðasta ári var byggð ein íbúð fyrir hverja 10 nýja íbúa sem gengur náttúrulega ekki,“ sagði Eyþór í samtali við Viðskiptablaðið eftir fundinn.

„Til þess að ná því þurfum við að byggja á hagkvæmum stöðum á hagkvæman hátt, og ekki bara dýrum stöðum eins og hefur verið gert. Við höfum komið með tillögur um Örfirisey, Keldur og að klára hverfin í borginni eins og Úlfarsárdal. Við verðum að byggja upp þar sem er hagkvæmt, og leyfa hagkvæmar einingar, allt frá 40 fermetrum, þannig náum við jafnvægi á markaðnum. Fasteignaverð hefur hækkað um 50% og það þarf róttækar breytingar. Okkar markmið er að byggðar verði 2.000 íbúðir á ári ekki 322 eins og var í fyrra.“

  • 2) Ferðatími til og frá vinnu styttist um 20%

„Ferðatíminn innanbæjar hefur lengst um 26% á fjórum árum samkvæmt gögnum og viljum við snúa þessu við og fara í margháttaðar aðgerðir til þess,“ segir Eyþór.

„Við stefnum á stórátak í samgöngumálum, þar sem við bætum Strætó og almenningssamgöngur, og líka aðstöðuna til að bíða eftir Strætó, svo fólk geti verið í skjóli. Síðan viljum við laga hættuleg ljósastýrð gatnamót og gera átak í þeim, og stýra umferðinni betur, því ljósastýringin er í molum. Síðan lofum við því að ferðatíminn lækki um 20% í stað þess að aukast sífellt. Ef við náum því munum við spara vinnudaga á ári, á milli þeirra sem keyra á milli hverfa.“

  • 3) Fella niður fasteignaskatt á 70 ára og eldri

„Það er nauðsynlegt að lækka álögur á íbúa borgarinnar, sérstaklega eldri borgara, og til þess viljum við afnema fasteignaskatt á eldri borgara, 70 ára og eldri,“ segir Eyþór. „Þannig viljum við auðvelda þeim þá að lifa með reisn og þeir sem vilja og geta, þá búið heima hjá sér og verið með sjálfstætt líf.“

  • 4) Öll börn fái leikskólapláss við 18 mánaða aldur

„Við viljum tryggja leikskólapláss með því að taka fé úr stjórnkerfinu og fjölga dagforeldrum og setja aukið fjármagn í leikskólana.“ sagði Eyþór. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær, þá eru 1629 börn á biðlista eftir leikskólaplássi í borginni í dag og um 40 stöðugildi ómönnuð í leikskólakerfinu.

„Því verður að breyta, það er nauðsynlegt fyrir þjónustustigið í borginni,“ segir Eyþór en hann vildi ekki lofa að gripið verði til heimgreiðslna líkt og Sjálfstæðismenn hafa oft áður beitt til að draga úr eftirspurn í kerfið fyrir þá foreldra eða vandamenn sem vilja vera heima með börnin.

„Við höfum skoðað þá leið og við erum opin fyrir þeim hugmyndum, en við erum ekki að lofa því hér og nú. En það er eitthvað sem kemur til skoðunar, sem sanngirnismál, sérstaklega á meðan ástandið er svona.“

  • 5) Svifryksmengun fari ekki yfir heilsuverndarmörk
  • 6) Reykjavík verði grænasta borg í Evrópu

„Síðan eru umhverfismálin, það þarf að taka til í Reykjavík, bæta flokkun og vistvænar samgöngur. Við viljum lofa því að svifryk fari ekki yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík, og þannig ná loftgæðunum í lag,“ segir Eyþór um þessi tvö loforð en í ávarpi sínu til fundarmanna benti hann á að borgin þrifi göturnar einungis tvisvar á ári. Síðustu vikurnar hefur verið mikil umræða um mikið rusl í borginni, og sagði Viðskiptablaðið frá því að allt hefði verið krökkt af dömubindum og klósettpappír við ströndina í Vesturbænum þegar vegfarandi átti þar leið um.

  • 7) Styttum afgreiðslutíma í kerfinu um helming

„Loks viljum við einfalda stjórnkerfið, þannig að það sparist fjármunir þar, en loforðið okkar er að stytta afgreiðslutíma borgarinnar um helming strax, en í framtíðinni gæti hann styst um 90%,“ segir Eyþór um síðasta af loforðunum sjö.

„Við viljum færa stjórnkerfi borgarinnar inn í nútímann, eins og við sjáum hjá fyrirtækjum sem eru að þjóna viðskiptavinum sínum. Borgin hins vegar er stundum mörg ár að svara, og slíkt er einfaldlega ekki boðlegt.“

Aðspurður sagði hann að þetta gæti þýtt að starfsfólki yrði fækkað í borginni í einhverjum tilfellum.„Já, við ætlum að fækka einhverjum stjórnendum, við teljum að það sé hægt að hlutina án þess að vera með 350 stýrihópa, og við teljum að það sé hægt að nútímavæða stjórnsýsluna.“