Bygging þjónustuhafnar á Dysnesi í Hörgársveit, um 15 kílómetrum fyrir norðan Akureyri, hefur verið í umræðunni í nokkur ár. Kostnaður við byggingu hafnar og iðnaðarsvæðis við Dysnes veltur á því hvaða starfsemi verður á svæðinu. Hugsanlegt er að kostnaðurinn verði allt að 18 milljarðar króna. Þá er verið að tala um heildarfjárfestingu sem dreifist á 10 til 15 ár því hugsunin er að byggja svæðið upp í áföngum. Byggingaráformin hafa tafist vegna þess að skipulagsvinnan hefur dregist á langinn en nú er að rofa til.

Sveitarstjórn Hörgársveitar mun á þriðjudaginn taka fyrir tillögu að nýju aðalskipulagi en hún er meðal annars forsenda þess að hægt verði að byggja upp þjónustuhöfnina á Dysnesi. Vinnan við skipulagið tafðist meðal annars vegna deilna um lagningu Blöndulínu 3, sem er háspennulínan sem á að tengja Blöndustöð og Akureyri.

Í Viðskiptablaðinu þann 9. janúar í fyrra kom fram að forsvarsmenn Dysness Þróunarfélags vonuðust eftir því að geta hafið framkvæmdir það ár. Þær áætlanir röskuðust augljóslega vegna tafa við aðalskipulagsvinnuna. Í samtali við Viðskiptablaðið núna segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri félagsins, ánægjulegt að aðalskipulagsvinnan sé að klárast.

Spurður hvenær framkvæmdir hefjist svarar Þorvaldur Lúðvík: "Við gerum ekkert fyrr en allt er orðið klárt. Það á enn eftir að staðfesta aðalskipulagið og það gerist líklega ekki fyrr en í haust eða í lok ársins."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .