Vísitala byggingarkostnaðar reiknuð um miðjan desember 2017 er 136,5 stig, en hún miðast við að hafa verið 100 stig í desember 2009. Hækkar hún um 0,2% frá fyrri mánuði, en innflutt efni hækkaði um 0,9% að því er Hagstofan greinir frá.

Á síðustu tólf mánuðum hefur vísitala byggingarkostnaðar hækkað um 4,8%. Ef miðað er við breytingar síðustu 12 mánuðina á undan hefur breytingin ekki verið meiri allt árið, en í síðasta mánuði nam hækkunin 4,5% og þar á undan 3,8% og loks 3,0% í september. Hins vegar lækkaði hún í apríl, maí og júní um -0,6%, -0,1% og -0,3%.