Frá árinu 2008 hefur kostnaður við byggingu íbúðarhúsnæðis í fjölbýli aukist töluvert umfram hækkun á húsnæðisverði í fjölbýli samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands og Þjóðskrá. Hagstofan hefur tekið saman byggingarkostnað á hvern fermetra í svokölluðu byggingarvísitöluhúsi allt frá árinu 1987.

Vísitöluhúsið er fjölbýlishús á höfuðborgarsvæðinu, nánar tiltekið eitt endastigahús af þremur í fjögurra hæða íbúðarblokk. Í stigahúsinu voru tíu íbúðir, þrjár tveggja herbergja, þrjár þriggja herbergja og fjórar fjögurra herbergja. Í janúar 2008 var kostnaðurinn 117.895 krónur á hvern fermetra, en var kominn í 200.407 krónur í janúar á þessu ári. Er þetta hækkun upp á um 70% á tímabilinu.

Byggingarvísitala hefur einnig hækkað um rétt tæp 70% á sama tímabili. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir íbúðarhúsnæði í fjölbýli hefur á sama tíma hækkað um 33%, farið úr 345 stigum í 458,7 stig.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fasteignir, sem kom út með Viðskiptablaðinu í vikunni. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .