Framkvæmdir eru hafnar á nýrri byggð við rætur Hlíðarfjalls á Akureyri og stefnan er að byggja frístundabyggð fyrir skíðafólk og aðra sem vilja sækja afþreyingu til Akureyrar. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir orlofsbyggð, gistiskálum og hóteli sem verður mikil viðbót við ferðaþjónustu á svæðinu.

Byggingaverktakinn SS Byggir keypti 28 hektara land úr landi Hlíðarenda og hefur svæðið verið nefnt Hálönd. Byrjað verður á 14 húsum sem eru á lokastigi hönnunar og eiga fyrstu þrjú húsin að vera tilbúin í vetur. Ef allt fer sem horfir munu allt að 100 orlofshús rísa í Hálöndum.

Sigurður Sigurðsson, eigandi SS Byggir, segir að byrjað verði á 14 húsum en möguleiki sé á að byggja 100 hús á þessu svæði. „Svæðið er mjög vel staðsett og nú getur skíðafólk rennt sér beint úr fjallinu í húsin,“ segir Sigurður og bætir við að fyrir þá sem stunda hestamennsku og mótocross séu slík tækifæri einnig í nágrenni við Hálönd.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan