Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir að þó mikið hafi verið byggt í Kópavogi síðustu ár sé uppbyggingunni ekki lokið. Hann segir að á næstu árum verði byggðar um 2.600 íbúðir í bænum. Hann segist reikna með að stór hluti af þeim, eða 1.500 til 2.000 íbúðir, verði byggðar á næstu 5 árum.

„Þetta er allt saman raunverulega að fara að gerast," segir Ármann Kr.

Á Kársnesi er gert ráð fyrir um 1.000 íbúðum samkvæmt aðalskipulagi. Búið að er gera deiliskipulag fyrir um 500 íbúðir og voru um 60 þeirra kláraðar árið 2015. Þessa dagana standa yfir framkvæmdir á svæðinu og er reiknað með að lokið verði við byggingu 2-300 íbúða á næstu árum en restin verður byggð seinna, engar tímasetningar liggja fyrir í þeim efnum.

Í Glaðheimum er gert ráð fyrri ríflega 500 íbúðum og um 260 af þeim verða kláraðar á næsta ári og afgangurinn á tveimur til fjórum árum þar á eftir.

Í Auðbrekku er gert ráð fyrir 300 til 400 íbúðum. Reiknað er með því að uppbyggingin taki fimm til átta ár en fyrstu 70 íbúðirnar eiga að vera klárar eftir tvö ár. Þar að auki er verið að skipuleggja 620 íbúðir við Smáralind gert er ráð fyrir því að hluti þeirra verði tilbúinn eftir tvö ár. Til viðbótar við þetta allt saman á enn eftir að byggja 60 til 70 íbúðir í Kópavogstúni og tæplega 30 íbúðir í Lundi.

Ármann Kr. segir að á 15 til 20 árum hafi bærinn byggt upp fimm skólahverfi. Þumalputtareglan er sú að í einu slíku hverfi séu 4.000 íbúar eða um 1.500 íbúðir.

„Nú þurfa aðrir að taka við og brjóta land," segir Ármann Kr.  „Við myndum gjarnan vilja vera í þessu áfram en við bara eigum ekki meira byggingarland. Reyndar ber að geta þess að það standa enn yfir deilur um Vatnsendalandið en þar væri hægt að byggja eitt skólahverfi í viðbót."

Varðandi uppbyggingu í Reykjavík segir Ármann Kr. „Þar hefur megináherslan verið á að þétta byggð og það er flókið. Þétting er frábær að því að leyti að með henni er verið að nota alla innviði mjög vel og ég er mjög hrifin af mörgum þeim þéttingarverkefnum sem borgin hefur staðið fyrir. Að mínu mati hefði borgin líka þurft að byggja ný hverfi. Það er miklu fljótlegri og skilvirkari leið til að mæta aukinni eftirspurn. Sveitarfélögin standa frammi fyrir því að þau þurfa að útvega lóðir svo það verði ekki verðsprenging á markaðnum."

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Fasteignir sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .