*

föstudagur, 22. mars 2019
Innlent 14. maí 2017 15:34

Byggt á þremur stöðum

Töluverð íbúðauppbygging er á Akureyri en nú er verið að skipuleggja nýja byggð við Krossanesbraut.

Trausti Hafliðason
Haraldur Guðjónsson

Gert er ráð fyrir byggingu um 500 íbúða í Hagahverfi á Akureyri en það er syðst í bænum, skammt frá Kjarnaskógi. Um það bil 400 íbúðanna verða í fjölbýli en um 100 í sérbýli. Samkvæmt upplýsingum frá skipulagssviði Akureyrarbæjar er mjög lítið eftir að fjölbýlishúsalóðum en töluvert fyrir sérbýli.

Í Hlíðarhverfi, norðan Glerár, er verið að skipuleggja 160 íbúðir í fjölbýli og verður lóðum úthlutað þar eftir að skipulagið hefur verið auglýst. Þá er bærinn að hefja vinnu við deiliskipulag við Krossanesbraut, sem er austan megin við Þorpið, en þar er gert ráð fyrir 150 íbúðum. Af þeim munu um 40% vera í fjölbýli en meirihlutinn raðhús og einbýlishús.

Öll þessi þrjú verkefni samræmast aðalskipulagi bæjarins en nýtt aðalskipulag verður tilbúið um næstu áramót og þá hefst deiliskipulagsvinna við fleiri svæði í bænum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá er þá hefur hlutfallsleg fjölgun íbúða verið meiri á Akureyri en í Reykjavík frá árinu 2011. Íbúðum á Akureyri hefur fjölgað um 4,5% frá árinu 2011 en á sama tímabili hefur íbúðum í Reykjavík fjölgað um ríflega 3,3%. Á Akureyri hefur verð á íbúðum í fjölbýli hækkað um 67% frá 2011 og sérbýli um tæp 50%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.