Skaginn 3X er sameiginlegt vörumerki þriggja systurfyrirtækja sem hanna og smíða byltingarkenndan búnað fyrir matvælaiðnaðinn, að mestu leyti sjávar- útveginn. Fyrirtækin sem um ræðir eru Skaginn hf. og Þorgeir & Ellert hf. á Akranesi og 3X Technology ehf. á Ísafirði, mismunandi fyrirtæki sem saman mynda eina sterka heild.

Skaginn 3X býður upp á heildarlausnir í bolfiski og uppsjávarfiski víða um heiminn, bæði í landvinnslu og um borð í skipum. Fyrirtækið smíðaði t.a.m. búnaðinn í nýjasta ísfiskstogara HB Granda, Engey, sem vígð var í byrjun apríl. Skaginn 3X mun einnig smíða sams konar búnað í tveimur systurskipum Engeyjar og fleiri skipum hjá öðrum útgerðum.

„Við byrjuðum á að þróa íslausa tækni með FISK Seafood á Sauðárkróki fyrir tæpum þremur árum og við höldum áfram þeirri þróun,“ segir Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X. Fyrsta skipið sem notar hina svokölluðu ofurkælingu eða SUB-CHILLING™ tækni Skagans 3X er Málmey, í eigu FISK Seafood.

Í Engey var stigið skrefinu lengra með íslausu tæknina og þá var aukið á sjálfvirkni til að bæta afkastagetuna um borð í skipinu. Eftir að gert hefur verið að fiskinum er hann meðhöndlaður á sjálfvirkan hátt, hann er tegunda- og stærðarflokkaður með myndgreiningartækni, búinn til hæfilegur skammtur í hvert kar, kældur og loks komið fyrir í kari á vinnsludekki. Þaðan er karinu komið fyrir í mannlausri lestinni. Með þessari tækni er aflinn unninn hraðar og öryggi sjómanna stórbætt, auk þess sem þungu fargi er af þeim létt, bókstaflega.

Skaginn 3X hefur sópað að sér verðlaunum að undanförnu, en fyrirtækið hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands og Útflutningsverðlaun forseta Íslands fyrr á árinu. Hjá Skaganum 3X starfa tæplega 200 manns á fjórum stöðum á landinu. Til framtíðar má segja að tæknin í heild sinni hafi alla möguleika til að valda straumhvörfum í veiðum, vinnslu og sölu afurða. Kerfislausn Skagans 3X býður upp á þann möguleika að rekja uppruna vörunnar allt frá veiðistað til hillustæða stórmarkaða.

„Eins og gefur að skilja þá er þetta algjör bylting í veiðum og vinnslu. Við teljum okkur vera að bjóða lausnir sem tryggja hvort tveggja gæði og rekjanleika, bæði neytendum og framleiðendum til hagsbóta,“ segir Ingólfur.

Nánar er fjallað um Skagann3X og fjölda annarra frumkvöðlafyrirtækja í nýja tímaritinu Frumkvöðlum. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.