WOW air mun fljúga á ný til Tel Aviv í Ísrael eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær.

Flogið verður þangað fjórum sinnum í viku; á þriðjudögum, miðvikudögum, fimmtudögum og laugardögum. Flug hefst 11. júní og stendur út október 2019. Sala flugsæta hefst á morgun, miðvikudag klukkan 10. „Við erum ánægð með að geta hafið flug til Ísrael að nýju,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofandi WOW air.

„Við finnum fyrir miklum áhuga á flugleiðinni. Bæði hafa Ísraelar mikinn áhuga á að heimsækja Ísland auk þess sem tengingin við Norður-Ameríku undirstrikar okkar sérstöðu á markaðnum.“

Tel Aviv er næststærsta borg Ísrael og státar af fögrum ströndum og merkum menningarverðmætum. Þar er mikil matarmenning og lifandi mannlíf. Þaðan er hægt að fara í dagsferðir á staði á borð við Dauðahafið, Jerúsalem og Bethlehem.