Karitas Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri tónlistar- og ráðstefnusviðs, segir að í fyrra hafi verið haldnar 24 alþjóðlegar ráðstefnur og vörukynningar í Hörpu.

„Þetta er töluvert meira en árið áður," segir Karitas. „Viðburðirnir eru líka fjölbreyttari og stærri."

Stærsta ráðstefnan sem haldin var í Hörpu í fyrra var Arctic Circle ráðstefnan sem haldin var í október. Um 2.000 manns sóttu ráðstefnuna en til samanburðar voru ráðstefnugestirnir um 1.500 árið 2015.  Ráðstefnan hefur vaxið ár frá ári og er nú ein helsta ráðstefnan sem haldin er um málefni norðurslóða á alþjóðavísu.

LG með stóra kynningu

Að sögn Karitasar hafa erlend fyrirtæki hafi í auknum mæli samband að fyrra bragði við forsvarsmenn Hörpu. Dæmi um það sé suðurkóreska stórfyrirtækið LG sem í júlí síðasta sumar kynnti Oled-sjónvörpin sín í Hörpu undir slagorðinu „The Perfect Black".
Þess má geta að LG setti myndbönd á Youtube, þar sem Ísland, Harpa og sjónvarpstækin eru í aðalhlutverki. Ellefu milljónir manna hafa horft á myndböndin.

Besta ráðstefnuhús Evrópu

Það átta sig kannski ekki allir á því en skipulagning stórra ráðstefna getur tekið nokkur ár. Karitas segir að Heimssamtök listrænna stjórnenda (e. International Society for the Performing Arts) séu búnir að ákveða að halda ráðstefnu í Hörpur árið 2021. „Við erum meira að segja komin með bókanir fyrir árið 2022."

Að sögn Karitasar hefur Harpa gott orðspor á sér sem ráðstefnuhús. „Það skiptir gríðarlega miklu máli. Tímaritið Business Destination valdi Hörpu til að mynda besta ráðstefnuhús í Evrópu árið 2016. Þetta hjálpar okkur mikið í allir markaðssetningu. Síðan hefur það náttúrlega einnig mikla þýðingu að samgöngur til landsins hafa tekið stakkaskiptum á undanförnum árum — mun fleiri flugfélög fljúga til landsins allt árið um kring en fyrir nokkrum árum."

Nánar er fjallað um málið í fylgiriti Viðskiptablaðsins, „Fundir & ráðstefnur". Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .