Iceland Seafood International hf. var í gærmorgun skráð á íslenska First North hlutabréfamarkaðinn, en félagið sérhæfir sig í sölu, framleiðslu og markaðssetningu á fjölbreyttu úrvali af frosnum, ferskum, söltuðum og þurrkuðum sjávarafurðum víða um heim.

„Það hefur verið metnaður hjá Kauphöllinni á Íslandi að koma First North markaðnum af stað, en hann hefur verið í lægð. Raunar er Iceland Seafood fyrsta félagið sem er frumskráð á þennan markað á Íslandi og við töldum félagið vera af réttri stærð fyrir þennan markað. Félagið stendur frammi fyrir miklum innri og ytri vaxtatækifærum auk þess sem það starfar í spennandi geira sem Íslendingar þekkja vel,“ segir Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood.

Helgi útilokar ekki að Iceland Seafood verði í framtíðinni skráð á aðalmarkaðinn í Kauphöllinni en telur ótímabært að íhuga slíkt í augnablikinu. Hann á von á því að fleiri fyrirtæki feti í fótspor Iceland Seafood og skrái sig á First North markaðinn á komandi misserum

„Ég held það. Maður hefur lært mikið um First North markaðinn á síðustu vikum og mánuðum og það er mjög spennandi kostur fyrir fyrirtæki að koma inn á þennan markað. Ég hef trú á því að við séum fyrsta félagið af nokkrum sem koma inn á þennan markað á næstu misserum,“ segir Helgi, sem telur að virkur markaður geti skapast með bréf félagsins.

„Við gerum okkur vonir um að það verði líf í okkar bréfum og við höfum m.a. tryggt við­ skiptavakt frá tveimur aðilum til þess að hvetja til að svo verði. Markmiðið er að það verði virk verðmyndun með bréfin á markaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .