Ed Bastian, forstjóri bandaríska flugfélagsins Delta Air Lines, gerir ráð fyrir hækkandi farmiðaverði á áætlunarflugi á næstunni. Með því muni Delta vinna til baka að hluta aukinn eldsneytiskostnað, sem mun hækka um tvo milljarða dollara á þessu ári, að því er Financial Times greinir frá.

Bastian á von á því að hagnaður félagsins verði nær óbreyttur, milli ára, um fimm milljarðar dollara. Bastian segir um afrek að ræða miðað við hve hratt olíuverð hafi hækkað.  Þá býst samkeppnisaðilinn United Continental við því að endurheimta um 90 prósent af hækkun olíuverðs með því að halda aftur af öðrum kostnaði og auka tekjur.

Eftirspurn eftir flugferðum sé vaxandi þrátt fyrir áhyggjur af hægari gangi í bandarísku hagkerfi og viðskiptastríð milli Bandaríkjanna og Kína að sögn Bastian. Áform Breta um að ganga úr ESB hafi ekki haft veruleg áhrif á flug yfir Atlantshafið. Hann býst við því að fundin verði lausn milli Bandaríkjanna, Breta og Evrópusambandsins um að halda flugleiðum yfir Atlantshafið opnum.