David Cameron játaði því í dag að hafa hagnast á því að eiga í aflandsfélagi föður síns. Cameron, sem er forsætisráðherra Bretlands, var einn þeirra sem birtust í Panama-skjölunum svokölluðu - en faðir hans, Ian Donald Cameron, var stjórnarformaður félagsins Blairmore Holdings Inc. sem var skráð í Bahamas-eyjum.

Að sögn Cameron eignaðist hann 30 þúsund punda hlut í félaginu árið 1997, sem hann seldi svo árið 2010 - rétt rúmum fjórum mánuðum áður en hann tók við embætti sínu. Blairmore var stofnað á áttunda áratugnum og hefur séð um eignastýringu fyrir fjölmargar efnaðar breskar fjölskyldur, þar til félagið var flutt til Bretlands árið 2012.

Félag föður Cameron komst hjá því að greiða skatta til Bretlands meðal annars með því að ráða til sín lítinn her eyjaskeggja frá Bahamas til þess að skrifa undir alla skjalavinnuna sem til þurfti að halda félaginu lögmætu. Fréttaveita The Guardian greindi frá þessu fyrir örstuttu síðan.