David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, gæti lent í enn meiri vandræðum eftir að hafa opinberað skattupllýsingar sínar frá árunum 2009-2015 vegna tengsla sinna við aflandsfélag í eigu föður síns.

Staða Cameron er veik eftir að hann játaði að hafa grætt á eign sinni í aflandsfélagi sem ljóstrað var upp um í hinum mikla gagnaleka frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca. Hann ákvað í kjölfarið að birta skattskýrslur sínar til að sýna að hann hefði ekki notað félagið til að skjóta undan skatti.

Þessi ákvörðun hans gæti þó gert illt verra, því á skattskýrslunum kemur í ljós að móðir Cameron millifærði í tvígang á hann 100.000 pund árið 2011 og sparaði fjölskyldunni mögulega 80.000 pund í erfðafjárskatt. Hefur vaknað sá grunur að þarna hafi vísvitandi verið að reyna að svíkjast undan skatti.

Cameron fékk 300.000 pund í skattfrjálsan arf eftir að faðir hans dó árið 2010, en í maí og júlí ári síðar fékk hann þessar tvær greiðslur frá móður sinni. Í breskum lögum er erfðafjárskattur ekki greiddur af gjöfum að verðmæti allt að 325.000 pundum sem greidd eru a.m.k. sjö árum áður en sá sem upphaflegur eigandi lætur lífið, hvort sem það er eign eða peningar.

Talsmaður forsætisráðherra sagði að móðir og faðir Cameron hafi nokkrum árum áður gefið elsta syni þeirra, Alexander Cameron, fjölskylduheimilið. Upphæðirnar greiddar til David Cameron árið 2011 áttu að vera hans hluti.