Capacent í Svíþjóð og Capacent á Íslandi hafa sameinast með kaupum þess fyrrnefnda á meirihluta hlutabréfa í Capacent á Íslandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Capacent.

Stefna félagsins er að vaxa með innri vexti og fjárfestingum. Kaupin á Capacent á Íslandi eru því líður í því að styrkja stöðu félagsins á Norðurlöndunum.

Edvard Björkenheim, framkvæmdastjóri Capacent í Svíþjóð segir í tilkynningunni að Capacent á Íslandi eigi mörg sóknarfæri við núverandi aðstæður og muni félögin því saman vinna að því að stækka og auka arðsemi. Auk þess segist hann sjá margvísleg samlegðaráhrif. Hægt verði að sameina krafta, mannauð og þekkingu til þess að takast á við stærri verkefni.

Auk þess er Capacent hluti af norrænu ráðgjafafyrirtæki með starfsemi í þremur löndum og mun samruninn styrkja stöðuna á Norðurlöndunum til muna. Félögin þekkjast öll vel innbyrðis og hafa starfað saman undir sama vörumerki í tæðan áratug.

Capacent Holding AB í Svíþjóð var þó upphaflega stofnað árið 1983 sem hluti af alþjóðafyrirtækinu ABB og hefur verið skráð á Nasdaq First North-markaðinn í Stokkhólmi frá árinu 2015. Hjá félaginu starfa nú um 100 sérfræðingar á skrifstofum í Svíþjóð og Finnlandi.

Á Íslandi starfa um 50 sérfræðingar á sviði stefnumótunar, stjórnunar, ráðninga, rekstrar, fjármála og upplýsingatækni.