Capacent spáir tæplega 0,6% lækkun vísitölu neysluverðs í janúar eða 0,56%. Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,6% í janúar í fyrra og er 12 mánaða verðbólga því óbreytt milli mánaða. Þetta kemur fram í verðbólguspá Capacent.

Áhrif gjaldskrárhækkana eru meiri á vísitölu neysluverðs nú um áramótin en fyrir ári. Þar af vegur þyngst hækkun á olíu- og bensíngjaldi auk hækkunar gjalds á sígarettur og áfengi. „Áhrif hækkunar framtalinna gjalda á vnv eru 0,2% nú í janúar. Á móti þessari hækkun kemur að áhrif gengisstyrkingar á innflutt verðlag eru nú meiri en fyrir ári síðan. Einnig er nokkuð hraustleg lækkun á flugfargjöldum samkvæmt lauslegri könnun Capacent en flugfargjöld voru óbreytt á sama tíma fyrir ári,“ er tekið fram í verðbólguspánni.

Reglubundin útsöluáhrif

Capacent býst við því að lækkun á verði fatnaðar og á öðrum útsöluvörum verði meiri en að öllu jöfnu á þessum árstíma. Útsölur munu hafa ríflega 1% áhrif á vnv til lækkunar. Það sem útskýrir meiri lækkun vegna útsala, að mati Capacent, er hagstæð gengisþróun og síðustu áhrif síðustu tollalækkunar á verð fatnaðar og væntingar um aukna samkeppni í smásölu með fatnað.