*

fimmtudagur, 21. júní 2018
Innlent 18. apríl 2017 14:26

CCP hagnast um rúma tvo milljarða króna

Hagnaður CCP jókst milli ára og nam 21,4 milljónum dollara í fyrra eða því sem jafngildir 2.375 milljónum króna miðað við gengi dagsins í dag.

Ritstjórn
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
Aðsend mynd

Fyrirtækið CCP hagnaðist um 21,4 milljónir dollara í fyrra eða því sem jafngildir 2.375 milljónum íslenskum króna miðað við gengi dagsins í dag. Hagnaðurinn jókst milli ára, en árið 2015 hagnaðist fyrirtækið um 20,7 milljón dollara. EBITDA félagsins nam 39 milljónum dollara árið 2016.

Tekjur fyrirtækisins námu 79,3 milljónum dollara árið 2016 samanborið við 61,4 milljónum dollara árið áður. Rekstrarkostnaður félagsins nam 53,2 milljónum dollara árið í fyrra.

Eignir CCP í lok árs 2016 voru metnar á ríflega 83 milljónir dollara og nam eigið fé félagsins á sama tíma 41,7 milljónum dollara. Skuldir CCP námu hins vegar tæplega 41,4 milljónum dollara.

Stærstu hluthafar CCP eru: NP ehf. sem á 27,2% eignarhlut, Teno Investments með 21,34% hlut, NEA 15 CCP sem á 11,27% hlut, Novator með 8,46% eignarhlut og Hilmar Veigar Pétursson.

Stikkorð: CCP afkoma hagnaður 2016