*

mánudagur, 18. febrúar 2019
Innlent 30. desember 2008 14:26

CCP hyggur á hlutafjáraukningu vegna nýs leiks

Ritstjórn

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP hefur áætlanir um að auka hlutafé félagins um allt að 10% á næsta ári. Að sögn Vilhjálms Þorsteinssonar, stjórnarformanns CCP, er miðað við að ráðist verði í hlutafjáraukninguna á 2. ársfjórðungi næsta árs.

Á síðasta aðalfundi CCP var samþykkt heimild til stjórnar að auka hlutafé og sagði Vilhjálmur að tímasetningin gæti tekið breytingum, allt eftir markaðsaðstæðum.

Hlutafjáraukningunni er ætlað að styðja við framleiðslu á nýjum leik sem ætlunin er að komi á markaðinn á fyrri hluta ársins 2011. ,,Við höfum viljað leita að réttu tækifæri til að fjármagna kúfinn í þróun og markaðssetningu á þeim leik. Við höfum verið að skoða valkosti í þessu efni og rætt við erlenda ráðgjafa og aðila á fjármálamarkaði um þetta mál. Tímasetning og útfærsla hefur ekki verið ákveðin endanlega,” sagði Vilhjálmur. Nú þegar eru unnið að nýjum leik af fullum krafti og hefur verið unnt að nota fjárflæði úr EVE-Online til þess.

EVE-Online hefur verið meginafurð félagsins til þessa en með nýjum leik er ætlunin að renna frekari stoðum undir rekstur félagsins. Aðspurður sagði Vilhjálmur að gert væri ráð fyrir að leita til fjárfesta út fyrir núverandi hluthafahóp enda fallið frá forkaupsréttarákvæði í heimild síðasta aðalfundar. ,,Við höfum verið spenntir fyrir þeim valkosti að fá nýja erlenda fjárfesta, sem þekkja okkar geira, til liðs við félagið.”

Eignarhald CCP er nokkuð dreift en meðal stærstu hluthafa eru, auk frumkvöðla og starfsmanna félagsins, Novator og bandaríski fjárfestingarsjóðurinn General Catalyst Partners.